arnessysla@krabb.is 482 1022

Þakklæti til Bakhjarla!

Um miðjan ágúst síðastliðinn lagði Krabbameinsfélag Árnessýslu af stað í stórt og spennandi verkefni með það að markmiði að efla starfsemi, auka aðgengi og sýnileika félagsins auk þess að bjóða uppá enn fjölbreyttari þjónustu í heimabyggð. Leiðin að markmiðinu var finna starfsemi félagsins hentugt húsnæði.

Með ástríðuna og vonina að leiðarljósi hefur félagið verið á höttunum eftir styrkjum og stuðningi frá fyrirtækjum og félagasamtökum í heimabyggð til að geta staðið straum af þessu verkefni. Mikil vinna hefur verið lögð í undirbúning og mörg samskipti við forsvarsmenn stórra og smárra fyrirtækja átt sér stað. Allstaðar er beiðni okkar tekið einstaklega vel!

Það eru forréttindi að búa í samfélagi þar sem samhyggð og náungakærleikur er svo ríkjandi að starfsemi sem eingöngu er byggð á styrkjum og stuðningi fyrirtækja, samtaka og almennings er möguleg. Hugsjón okkar fyrir uppbyggingu á þjónustu og stuðningi við krabbameinsgreinda og aðstandendur þeirra hafa drifið okkur af stað í samstarf með samfélaginu í heild.

Krabbameinsfélag Árnessýslu verður brátt aðgengilegra og sýnilegra, boðið verður uppá fasta opnunartíma í fallegri og notalegri aðstöðu sem félagið er að koma sér upp að Eyravegi 31. Aukin og fjölbreytt þjónusta, viðburðir og námskeið í heimabyggð. Markmið okkar er að hlúa að andlega -og félagslega þættinum, vera til staðar fyrir hvert annað og takast á við fyrirsjáanlega og óvænta rússibana sem geta fylgt krabbameinsferlinu.

Við erum auðmjúk í þakklæti okkar til allra þeirra fyrirtækja sem hafa gerst Bakhjarlar okkar í þessu verkefni. Án ykkar stuðnings væri þetta ekki að gerast.

f.h. Krabbameinsfélag Árnessýslu,
Svanhildur Ólafsdóttir, formaður

Comments are closed.