arnessysla@krabb.is 482 1022

Hreyfing sem forvörn

Það er engin mýta að hreyfing og heilbrigður lífsstíll er ein allra besta forvörnin fyrir ýmsum sjúkdómum sem herjað geta á okkur á ævinni. Ekki eingöngu að hreyfing sé ein besta forvörnin heldur hefur það sýnt sig og sannað að þeir sem eru í góðu líkamlegu formi og andlegu jafnvægi eru betur í stakk búnir til að takast á við sjúkdóma og afleiðingar þeirra. Það er margt sem gerist í líkamanum þegar þú hreyfir þig.

Við reglulega hreyfingu lækkar blóðþrýstingur og kólesteról, hjartað styrkist og lungun þenjast betur út sem eykur súrefnisflæði til líffæranna. Hreyfing getur þannig dregið úr þreytu og aukið líkamlega orku með því að auka súrefnisupptöku í vöðvum. Bein, liðamót og vöðvar styrkjast. Líkur á sykursýki minnka. Hreyfing vinnur einnig gegn depurð og bætir andlega líðan. Ákveðnar tegundir krabbameina eru einnig fátíðari hjá þeim sem hreyfa sig reglulega og rannsóknir hafa einnig sýnt að þeir sem byrja að hreyfa sig eftir að hafa greinst með krabbamein hafa auknar lífslíkur og betri lífsgæði.

Holl og góð hreyfing er öflug forvörn

Krabbameinsfélag Árnessýslu ætlar að styðja við átakið MottuMars með heilsueflandi viðburðum í heimabyggð. Boðið verður uppá fræðslufyrirlestra sem miða að heilbrigði og líkamsbeitingu, tekið þátt í Karlahlaupinu 1.mars og efnt til fjörugra viðburða sem auglýstir verða þegar líður að.

Dagskráin verður birt á heimasíðu félagsins, www.krabbameinsfelagarnessyslu.is á facebooksíðu félagsins og reglulega í Dagskránni fréttamiðli.

Við hvetjum fyrirtæki, stofnanir, fjölskyldur og einstaklinga til að taka virkan þátt í heilsueflandi forvörnum gegn krabbameinum, nýta tækifærið til að fræðast og kynnast fjölbreytileika hreyfingar.

Sýnum baráttunni gegn krabbameinum stuðning í verki, mætum á viðburði og tökum þátt í forvarnarstarfi félagsins.

f.h Krabbameinsfélags Árnessýslu
Svanhildur Ólafsdóttir, formaður

Comments are closed.