arnessysla@krabb.is 482 1022

Mikil eftirspurn eftir skimun hjá Leitarstöðinni

Til að koma til móts við mikla eftirspurn eftir skimun hefur Leitarstöðin fjölgað tímum í legháls- og brjóstaskimunum. Tímapantanir í síma 540 1919

Konur hafa tekið vel við sér eftir að Leitarstöð Krabbameinsfélagsins opnaði á ný þann 4. maí eftir tímabundna lokun vegna Covid-19. Til að koma til móts við mikla eftirspurn eftir skimun hefur Leitarstöðin fjölgað tímum í legháls- og brjóstaskimunum. Þess er gætt að fylgja eftir leiðbeiningum frá sóttvarnaryfirvöldum.

Guðrún Birgisdóttir, geislafræðingur, í brjósta- myndatöku á Leitarstöð 2019.

„Þetta eru afar ánægjulegt tíðindi því skimanir eru mikilvægur liður í því að greina krabbamein á forstigi og draga þannig úr líkum á dauðsföllum af völdum þeirra. Við vitum að það er nánast hægt að koma í veg fyrir leghálskrabbamein með reglubundinni skimun og greiningu á forstigi og með skimun fyrir brjóstakrabbameinum aukast líkur á að meinin finnist snemma, sem eykur líkur á lækningu. Við hvetjum konur til að bregðast við og panta tíma hafi þær fengið boð í skimun,“ segir Ágúst Ingi Ágústsson yfirlæknir Leitarstöðvar.

Gjaldfrjáls skimun skilar árangri

Krabbameinsfélagið telur mikilvægt að skimun verði gjaldfrjáls og hefur lagt það til við stjórnvöld, til að tryggja jafnt aðgengi að skimun.

Félagið hefur unnið markvisst að því undanfarin ár að auka þátttöku kvenna í skimunum með góðum árangri. Á síðasta ári stóð félagið fyrir tilraunaverkefni þar sem konum, sem var boðið í fyrsta sinn í skimun, bauðst hún þeim að kostnaðarlausu. Var það gert til að kanna hvort kostnaður við skimun hefði áhrif á þátttöku kvenna. Verkefnið var fjármagnað af Krabbameinsfélaginu. Niðurstöður verkefnisins voru afgerandi, 27% kvenna á 23. aldursári og 11% kvenna á 40. aldursári sögðust ekki hafa mætt í skimun nema af því að hún var ókeypis. Því er ljóst að gjaldfrjáls skimun skiptir miklu máli en 34% aukning var milli ára á komum í skimun meðal 23 ára kvenna í leghálsskimun og 51% hjá 40 ára konum í brjóstaskimun. Skimun er ókeypis á flestum Norðurlandanna, til að tryggja jafnt aðgengi að henni.

Erfðagjöf frá Láru Vigfúsdóttur kemur þúsundum kvenna til góða

Leitarstöðinni barst á síðasta ári vegleg erfðagjöf frá innanhússarkitektinum Láru Vigfúsdóttur frá Vestmannaeyjum. Ákveðið var að nýta gjöfina í þágu kvenna með því að bjóða áfram gjaldfrjálsa skimun. Þannig má reikna með að á þriðja þúsund konur, sem koma í fyrsta skipti í skimun fyrir krabbameinum njóti góðs af gjöf Láru. Þakklæti til Láru fyrir þessa stóru gjöf til samfélagsins er mikið.

Fréttin er af vef krabb.is

Comments are closed.