arnessysla@krabb.is 482 1022

Skimun fyrir blöðruhálskirtilskrabbameini

Skipulögð hópleit (skimun) að krabbameini í blöðruhálskirtli er almennt ekki framkvæmd. Það er ekki að ástæðulausu, en málið er nokkuð flókið.

Hvað gera læknar til athuga hvort krabbamein sé mögulega í blöðruhálskirtlinum?
Upphafsleit að vísbendingum um mögulegt krabbamein í blöðruhálskirtli felur í sér mælingu á PSA (Prostate Specific Antigen) gildi í blóði og þreifingu á kirtlinum um endaþarm.

Krabbamein í blöðruhálskirtli finnst hjá 80% karla yfir 80 ára

Hvaða upplýsingar fást með PSA mælingu og þreifingu á kirtlinum?
PSA er mótefnavaki (prótín) sem blöðruhálskirtillinn myndar og getur hækkað gildi verið vísbending um krabbamein í kirtlinum. Niðurstaða slíkrar mælingar gefur samt ekki afgerandi upplýsingar þar sem hækkun á gildinu getur líka átt sér aðrar orsakir, t.d. stafað af bólgu í kirtlinum, góðkynja stækkun hans eða af áreynslu.

Einnig mælist í sumum tilfellum ekki hækkun á PSA-gildinu þrátt fyrir að krabbamein sé til staðar. Semsagt, niðurstaða úr PSA-prófi gefur ekki afgerandi upplýsingar, þó að vissulega sé hún vísbending.

Ákveðnir þættir sem læknirinn finnur fyrir við þreifingu kirtilsins, t.d. hnútar, geta líka verið vísbending um krabbamein.

Ef niðurstöður úr þessum athugunum gefa lækninum ástæðu til að kanna málin frekar ómar hann kirtilinn hugsanlega og/eða tekur sýni úr kirtlinum með mjórri nál til að greina hvort illkynja frumur séu í kirtlinum.

Rök gegn fjöldaskimun
Tíðni krabbameins í blöðruhálskirtli eykst samhliða aldri og myndast í raun hjá flestum körlum eftir því sem aldurinn færist yfir (finnst hjá 80% karla yfir 80 ára). Það hljómar líklega ekki mjög vel en staðreyndin er sú að meirihluti þessara meina er svo hægvaxandi að þau ógna ekki heilsu og hafa lítil sem engin einkenni í för með sér.

Þess vegna er það að ef allir karlar (t.d. 50-70 ára) væru skipulega boðaðir í skimun fyrir krabbameini í blöðruhálskirtli myndu margir þeirra greinast með krabbamein, en flest meinin væru þó þess eðlis að þau myndu ekki verða til neinna vandræða, mennirnir hefðu aldrei vitað af þeim ef ekki hefði verið leitað sérstaklega.

Í kjölfar krabbameinsgreiningar hvers karls fyrir sig þyrfti svo að taka ákvörðun um hvert framhaldið ætti að vera. Væru þá í mörgum tilfellum líklega framkvæmdar ónauðsynlegar aðgerðir á fjölda karla. Þar sem mögulegar aukaverkanir eins og þvagleki og risvandamál geta haft mikil áhrif á lífsgæði karla, myndu margir karlar búa við slíkt að óþörfu.

Þeir sem myndu greinast en velja að gangast ekki undir meðferð gætu líka búið við skert lífsgæði að því leyti að þeir gætu margir búið við kvíða og vanlíðan vitandi að þeir séu í raun með krabbamein þó hægvaxandi sé.

Auðvitað myndi hluti karlanna greinast með og fá meðhöndlun við krabbameini sem hefði orðið illvígt krabbamein og orðið þeim til tjóns ef það hefði ekki fundist.

Samantekið, út frá því að ekki er hægt að greina meinin nákvæmar í upphafi en hér hefur verið lýst, má sjá að heildarskimun allra karla á tilteknum aldri myndi skila því að nokkrum væri bjargað en á móti kæmi að lífsgæði fjölmargra annarra karla myndu í raun skerðast af völdum skimunarinnar. Þar sem skimunaraðferðirnar skila ekki nákvæmari niðurstöðun en hér hefur verið lýst er ekki talið réttlætanlegt að beita þeim í skipulögðum hópleitum.

Það er því undir hverjum karlmanni komið að meta stöðuna fyrir sig, helst í samráði við lækni.

Hverjir ættu samt að leita til læknis?

  • Þeir karlmenn sem finna fyrir einkennum sem bent gætu til blöðruhálskirtilskrabbameins.
  • Þeir karlmenn sem eiga náinn ættingja (föður, bróður, son) sem greinst hefur með krabbamein í blöðruhálskirtli.
  • Þeir karlmenn sem eru með stökkbreytingu í BRCA2 geni.

Tekið skal fram að hverjum og einum karlmanni er samt í sjálfsvald sett að óska eftir skoðun hjá sínum heimilislækni en við ráðleggjum eindregið að menn kynni sér málin vel áður, bæði kosti og galla, til að geta tekið upplýstar ákvarðanir.

Að taka upplýsta ákvörðun um að láta tékka á sér – eða ekki
Áður en menn biðja lækni um að láta athuga hvort hjá þeim finnist mögulega vísbendingar um krabbamein í blöðruhálskirtli þurfa þeir að hugsa nokkur skref fram á við. Vissulega er það líklega léttir ef niðurstöður benda til þess að ekki sé um krabbamein að ræða en hverjar verða ákvarðanirnar í framhaldinu ef vísbendingar eru á hinn veginn?

Leggst vitneskjan um mögulegt krabbamein kannski þungt á menn þrátt fyrir að þeir ákveði að láta ekki rannsaka nánar? Hefðu þeir kannski verið betur settir án vitneskjunnar um að vísbendingar um krabbamein séu til staðar?

Bara ákvörðun um áframhaldandi rannsóknir krefst umhugsunar því að t.d. við sýnatöku með nál er alltaf viss hætta á sýkingu.

Þannig er að ýmsu að huga og mikilvægt að menn ræði þessi mál við lækninn fyrirfram.

Virkt eftirlit – hvað er það?
Ef menn greinast með blöðruhálskirtilskrabbamein sem er farið að dreifa sér er nær alltaf mælt með einhvers konar meðferð. Sé meinið hins vegar staðbundið og hægvaxandi er sá möguleiki fyrir hendi að vera í svokölluðu virku eftirliti. Þá er PSA-gildi mælt og kirtillinn þreifaður reglulega til að fylgjast með því hvort breytingar verða og þá bregðast við út frá því.

Verða greiningaraðferðir nákvæmari seinna meir ?
Víða um heim fara fram rannsóknir þar sem leitað er leiða til að þróa nákvæmari próf með það fyrir augum að greina illvíg krabbamein í blöðruhálskirtli frá hægvaxandi krabbameini og góðkynja bólgum. Ef þær rannsóknir leiða til áreiðanlegri prófa er líklegt að kerfisbundin skimun fyrir krabbameini í blöðruhálskirtli verði hafin. Án betri prófa er þó ekki talið réttlætanlegt og hagkvæmt að skima skipulega fyrir þessu krabbameini.

Fræðslumyndbönd um krabbamein í blöðruhálskirtli

loading videos
Loading Videos...

Comments are closed.